Heimspeki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Fara á: flakk, leita
Hugsuðurinn eftir Auguste Rodin
Hugsuðurinn eftir Auguste Rodin

Heimspeki er glíma við grundvallarspurningar. Þeir sem fást við heimspeki kallast heimspekingar. Þeir reyna m.a. að skýra inntak og tengsl hugtaka og fyrirbæra á borð við sannleika, merkingu og tilvísun, skilning, þekkingu, skoðun, vísindi, skýringu, lögmál, tegund, samsemd, eðli, eiginleika, orsök, rök, vensl, nauðsyn, möguleika, lög, rétt, rangt, gott, illt, hamingju, dygð, skyldu, athöfn, atburð, réttlæti, réttindi, frelsi, vináttu, ást, fegurð, list og svona mætti lengi áfram telja. En heimspekin er ekki hvaða glíma sem er við þessar spurningar sem á okkur leita, heldur er hún fyrst og fremst tilraun til að fást við þessar spurningar af einurð og heilindum. Hún er ekki einber opinberun einhverrar skoðunar, heldur er hún ætíð rökstudd, jafnvel þótt stundum séu rökin ósögð og undanskilin og þau verði að lesa á milli línanna.

Við þetta má bæta að heimspeki er ekki bara samansafn spurninga sem raunvísindin eiga eftir að svara, því túlkun á niðurstöðum vísindanna getur beinlínis oltið á heimspekilegri afstöðu sem liggur tilraunum og túlkun þeirra til grundvallar. Þess vegna geta vísindin einfaldlega ekki svarað öllum spurningum heimspekinnar án þess að gefa sér svörin. Á hinn bóginn mætti segja að heimspekin sé sjálf ákveðin grein eða ákveðinn þáttur vísindanna eða framhald þeirra; hún hefur sjálf eitthvað fram að færa til heildarmyndar okkar af sjálfum okkur og heiminum, lífinu og tilverunni.

Heimspekilegar bókmenntir einkennast öðru fremur af röksemdafærslum, sem eru notaðar til að setja fram kenningar um viðfangsefni heimspekinnar. Þessar röksemdafærslur fela yfirleitt í sér hugleiðingar um andstæð eða gagnstæð viðhorf og meinta galla á þeim.

Upphaflega náði hugtakið heimspeki yfir mun víðara svið viðfangsefna en það gerir í dag. Til dæmis veltu forverar Sókratesar fyrir sér spurningum um uppruna og myndun alheimsins, eðli efnisheimsins og uppruna tegundanna. Þessar vangaveltur urðu að endingu að grunni náttúruvísindanna, sem nefndust áður „náttúruheimspeki“ eða „náttúruspeki“.

Með tilkomu háskólanna tók heimspekin á sig mynd fræðigreinar en frá og með 20. öld hefur hún einkum þrifist innan veggja háskólanna.

Óformlega getur orðið „heimspeki“ vísað til almennrar heimsmyndar eða tiltekinnar siðferðissannfæringar eða skoðunar.

Efnisyfirlit

[breyta] Orðsifjar

Orðið „heimspeki“ kann að vera tökuþýðing úr þýsku enda svipar því til orðsins „Weltweisheit“ hvað samsetningu varðar. Það orð er ekki lengur í almennri notkun í þýsku. Áður fyrr þekktist einnig orðið „ástarspekt“ en það var þýðing á gríska orðinu φιλοσοφία (fílo-sofía).[1] Af forngríska orðinu er komið enska orðið „philosophy“, líkt og skyld orð í öðrum málum. Orðið merkir „ást á visku“. Í nútímasamhengi er það notað til að vísa til orðræðna um hvað er til, hvað þekking er (og hvort hún er möguleg) og hvernig maður ætti að lifa lífinu.

[breyta] Skilgreining

Það hefur reynst afar erfitt að finna skilgreiningu á heimspeki vegna þess hve margvíslegar hugmyndir hafa verið kallaðar heimspeki. Eigi að síður má reyna að lýsa einkennum hennar að einhverju marki. Penguin Dictionary of Philosophy skilgreinir heimspeki sem rannsókn á „almennustu og mestu grundvallarhugtökum og -lögmálum sem eru fólgin í hugsun, athöfnum og raunveruleikanum“.

Flestir heimspekingar eru sammála um að aðferð heimspekinnar felst í rökrænni orðræðu, enda þótt sumir heimspekingar hafi dregið í efa að maðurinn sé fær um rökhugsun, eins og henni er venjulega lýst.

The Penguin Encyclopedia segir að heimspeki sé frábrugðin vísindunum að því leyti að spurningum heimspekinnar sé ekki hægt að svara með tilraunum og athugunum og frábrugðin trúarbrögðum að því leyti að heimspekin leyfi ekki blinda trú eða opinberun. Um þetta má þó deila. Til dæmis segir í Oxford Dictionary of Philosophy: „Andi greinarinnar á síðari hluta 20. aldar ... kýs fremur að sjá heimspekilegar vangaveltur sem framhald af bestu venjum allra sviða vitsmunalegrar athugunar.“

Markmið heimspekinnar, samkvæmt Penguin Dictionary of Philosophy, er „hlutlaus öflun þekkingar hennar sjálfrar vegna“.

[breyta] Undirgreinar heimspekinnar

Það er ekkert almennt samkomulag um hverjar séu megingreinar heimspekinnar. Í bókinni The Story of Philosophy telur Will Durant rökfræði, þekkingarfræði, siðfræði, fagurfræði og frumspeki sem megingreinar hennar en þessi svið heimspekinnar skarast á marga vegu og margar heimspekilegar hugmyndir falla ekki ljúflega í neinn þessara flokka.

Sérhver undirgrein hefur sínar eigin grundvallarspurningar.

  • Rökfræðin spyr: Hvernig greinum við á milli gildra og ógildra röksemdafærslna?
  • Þekkingarfræðin spyr: Er þekking möguleg? Hvernig vitum við hvað við vitum?
  • Siðfræðin spyr: Er munur á siðferðilega réttum og siðferðilega röngum athöfnum, gildum eða stofnunum? Hvaða athafnir eru réttar og hverjar eru rangar? Eru gildi algild eða afstæð? Hvernig er best að lifa lífinu? Er til staðlandi gildi sem er grundvöllur allra annarra gilda? Eru gildi 'í' heiminum (eins og stólar og borð) og ef ekki, hvaða skilningi eigum við að skilja verufræðilega stöðu þeirra?
  • Fagurfræðin spyr: Hvað er fegurð?
  • Frumspekin spyr: Hvað er raunveruleiki? Hvað er til og í hvaða skilningi er það til? Eru hlutir til óháð skynjunum?

Hver og ein þessara undirgreina hefur sínar eigin undirgreinar og/eða eru grundvöllur annarra minni og sértækari sviða heimspekinnar. Önnur meginsvið heimspekinnar eru:

[breyta] Saga heimspekinnar

Sögu vestrænnar heimspeki er venjulega skipt í þrjú megintímabil: fornaldarheimspeki, miðaldaheimspeki og nýaldarheimspeki.[2] Sumir heimspekingar hafa haldið því fram að nýtt tímabil sé hafið, „póstmóderníska“ tímabilið. Austræn heimspeki var lengst af óháð vestrænni heimspeki.

Aristóteles (384-322 f.o.t.)
Aristóteles (384-322 f.o.t.)

[breyta] Fornaldarheimspeki

Aðalgrein: fornaldarheimspeki

Forngrískri heimspeki er venjulega skipt í þrjú tímabil: forvera Sókratesar, klassíska heimspeki og helleníska heimspeki.[3] Einnig er oft talað um rómverska heimspeki sem sérstakt tímabil þótt rómversk heimspeki sé í raun vart annað en áframhald hellenískrar heimspeki innan Rómaveldis. Þá er tíminn frá 3. öld stundum nefndur síðfornöld og heimspeki þess tíma heimspeki síðfornaldar.

[breyta] Forverar Sókratesar

Tímabil forvera Sókratesar einkenndist af frumspekilegum vangaveltum og tilraunum til þess að finna „uppsprettuna“, það sem lægi veruleikanum til grundvallar.[4] Meðal mikilvægra heimspekingar þessa tímabils eru Þales, Anaxímandros, Anaxímenes, Pýþagóras, Herakleitos, Xenófanes, Parmenídes, Zenon frá Eleu, Melissos, Empedókles, Anaxagóras, Levkippos og Demókrítos.

Á grundvelli greiningar á sögninni „að vera“ leiddi Parmenídes rök að því að ekki væri til neinn mismunur og þar með væru hreyfing og breyting einungis tálsýn. Fornmenn sjálfir álitu rök Parmenídesar sýna að tilraunir fyrstu heimspekinganna (Þalesar, Anaxímandrosar, Anaxímenesar) til þess að finna einhverja eina uppsprettu sem útskýrði margbreytileika heimsins væru dauðadæmdar. Í kjölfarið komu fram fjölhyggjukenningar sem áttu að koma til móts við Parmenídes að einhverju leyti. Uppspretturnar voru nú taldar fleiri en ein (frumefnin fjögur (eða „ræturnar“ fjórar) hjá Empedóklesi, og ótalmörg „samkynja“ efni hjá Anaxagórasi) og samspil þeirra átti að útskýra margbreytileika heimsins og möguleikann á hreyfingu og breytingu en sjálfar voru uppspretturnar taldar „parmenídískar“ verundir í einhverjum skilningi, varanlegar og óbreytanlegar.

Heimildir okkar um skoðanir, kenningar og rök þessara manna eru afar brotakenndar en ekkert heildsætt rit um heimspeki hefur varðveist frá þessum tíma.

[breyta] Klassísk heimspeki

Mestar heimildir eru frá klassíska tímabilinu en mikilvægustu heimspekingar tímabilsins voru Sókrates, Platon og Aristóteles. Þeir síðastnefndu eru meðal áhrifamestu heimspekinga sögunnar og eru þeir hugsuðir sem hvað mest hafa mótað heimspekina og viðfangsefni hennar.

Sagt er að Sókrates hafi fyrstur fengist við siðfræði en þó virðist Demókrítos (sem var samtímamaður Sókratesar) einnig hafa gert það.[5] Í ritum Platons er persónan Sókrates svo látinn halda fram ýmsu öðru en því sem talið er að hinn sögulegi Sókrates hafi haldið fram og veldur það erfiðleikum að segja með vissu hvaða skoðanir hinn raunverulegi Sókrates hafði. Einkum virðist mega eigna honum tvennt. Annars vegar að enginn sé vísvitandi illur; hins vegar að dygðþekking.

Platon var lærisveinn Sókratesar.[6] Hann fékkst við nánast öll svið heimspekinnar en frægust kenninga hans er sennilega frummyndakenningin. Platon taldi að efnisheimurinn væri hverful og léleg eftirlíking af fullkomnum heimi óhlutbundinna frummynda. Raunveruleg þekking hlyti að vera þekking á frummyndunum.

Aristóteles var nemandi Platons.[7] Hann fékkst við svo að segja öll svið heimspekinnar og er heimspeki hans afar kerfisbundin. Aristóteles fékkst einnig við vísindi og stundaði meðal annars rannsóknir í líffræði, líffærafræði, dýrafræði, veðurfræði, stjörnufræði, sálfræði, hagfræði og stjórnmálafræði. Hann fann upp rökfræði sem fræðigrein. Siðfræði Aristótelesar hefur verið endurlífguð á 20. öld og haldið á lofti m.a. af G.E.M. Anscombe, Philippu Foot, Alasdair MacIntyre og Rosalind Hursthouse.

[breyta] Hellenísk heimspeki

Hellenísk heimspeki[8] er strangt tekið einungis heimspeki helleníska tímans, þ.e. frá dauða Alexanders mikla árið 323 f.o.t. (í heimspeki er miðað við dauða Aristótelesar árið síðar) til ársins 31 f.o.t., en orðið er stundum einnig notað um rómverska heimspeki og heimspeki síðfornaldar enda urðu ekki skörp skil í sögu heimspekinnar með endalokum helleníska tímans. Meðal mikilvægustu hugsuða og skóla þessa tímabils eru Zenon frá Kítíon, Krýsippos, Arkesilás, Karneades, Epikúros, Pyrrhon, Panætíos, Póseidóníos, Epiktetos, Seneca, Markús Árelíus og Sextos Empeirikos. Nýplatonistinn Plótínos er venjulega talinn til síðfornaldar.

Á hellenískum tíma blómstruðu einkum þrír skólar: epikúrismi, stóuspeki og efahyggja.

[breyta] Epikúrismi
Aðalgrein: Epikúrismi

Epikúrisminn var heimspeki Epikúrosar en Epikúros var undir miklum áhrifum frá Demókrítosi.[9] Epikúros hélt fram rammri efnishyggju og varði eindahyggjuna (atómismann) sem Levkippos og Demókrítos höfðu fyrstir sett fram. Hann hélt því einnig fram að ánægjan væri hin æðstu gæði en Epikúros taldi að andleg ánægja væri æðri líkamlegri ánægju og að í öllu skyldi gæta hófs.

[breyta] Stóuspeki
Aðalgrein: Stóuspeki

Upphafsmaður stóuspekinnar[10] var Zenon frá Kítíon en Krýsippos var annar mikilvægur málsvari hennar. Stóumenn voru efnishyggjumenn en þó ekki eins afdráttalausir og epikúringar. Þeir kenndu að lífinu skyldi lifað í samræmi við náttúruna og örlögin. Stóumenn voru að vissu leyti algyðistrúar og töldu að heimurinn allur væri guðlegur, hann væri gegnsýrður af skynseminni, logos, en það hugtak fengu þeir f